40 ára afmæli EPTA á Íslandi

EPTA stóð fyrir ýmsum viðburðum í tilefni 40 ára afmælis félagsins þann 19. febrúar 2019.

Afmælishátíð var haldin 19. febrúar í Hannesarholti og mættu þangað gamlir félagar sem og nýir. Ungi píanistinn Kári Egilsson kom og lék á flygilinn með glæsibrag m.a. frumsamið efni, en Kári hlaut í lok árs 2018 hvatningarverðlaun ASCAP, sem eru samtök tónskálda í Bandaríkjunum. Verðlaunin hlaut Kári fyrir framlag sitt sem upprennandi tónskáld og lagahöfundur.

Stjórn EPTA ákvað í tilefni afmælisársins að veita heiðursviðurkenningu í fyrsta sinn. Þrír félagar sem allir hafa gegnt mikilvægu hlutverki í starfi og uppbyggingu félagsins voru sæmdir heiðursviðurkenningunum. Það voru þau Arndís Steingrímsdóttir, Inga Ásta Hafstein og Halldór Haraldsson. Halldór gat ekki verið viðstaddur á afmælisdegi EPTA en fékk heiðursviðurkenninguna afhenta af stjórn félagsins á góðri kvöldstund stuttu síðar.

Píanódagur EPTA var haldinn 25. maí í sal Tónlistarskóla Garðabæjar í Kirkjulundi. Þar léku nokkrir lengra komnir nemendur úr Listaháskólanum áhugaverða efnisskrá. Þeim var svo boðið að taka þátt í masterklassa Jeremy Denk um haustið.

Næsti viðburður á afmælisárinu voru svo tónleikar bandaríska píanóleikarans Jeremy Denk.  Þeir voru haldnir sunnudaginn 29. september í Norðurljósasal Hörpu og lék Denk þar af mikilli snilli og listrænu innsæi. Daginn eftir tónleikana leiddi hann síðan masterklassa í sal Tónlistarskóla Garðabæjar í Kirkjulundi. Þar léku nemendur úr Listaháskólanum fjölbreytt verk tónbókmenntanna og fengu góða tilsögn og hugmyndir frá Denk varðandi tækni og túlkun verkanna.