Vel heppnuð innanlandsráðstefna EPTA

Frábær þátttaka var í 3. EPTA ráðstefnu Íslandsdeildar sem haldin var í Bergi Hljómahöll í samstarfi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar 14. janúar sl. Sóttu hátt í fjórða tug píanókennara landsins ráðstefnuna til að hlýða á innlenda og erlenda fyrirlesara. Hápunktur ráðstefnunnar voru fyrirlestur prófessors Juliu Mustonen-Dahlkvist um undirbúning nemenda fyrir keppnir og einleikstónleikar Aristo Sham sem flutti úrval verka eftir Scarlatti, Scriabin, Liszt, Brahms og Barber. Það var heiður fyrir EPTA að kynna slíka rísandi stjörnu fyrir Íslendingum og verður spennandi að fylgjast með þessum unga snilling.
Ummæli Haralds A. Haraldssonar skólastjóra Tónlistarskóla Reykjanesbæjar eru lýsandi fyrir hversu vel ráðstefnan heppnaðist í alla staði: “Ég fann mjög vel fyrir ánægju ráðstefnugesta, bæði með efnistökin á ráðstefnunni og aðstöðunni sem EPTA bauð sínu fólki upp á. Ég er ánægður með að hafa fengið að vera hluti af því með skólanum mínum. Tónleikarnir voru frábærir! Gaman og nærandi að sjá og heyra svona ungan virtúós. Gríðarlega þroskaður flutningur og öll mótun, tónmyndun og blæbrigði snertu mig óneitanlega, eins og aðra tónleikagesti. Stjórn EPTA má vera stolt af upplagi ráðstefnunnar og því hvernig til tókst.” Júlíana Rún Indriðadóttir skólastjóri Tónskóla Sigursveins sagði um ráðstefnuna: “mjög fínir og vel fluttir fyrirlestrar – tónleikarnir í lokin voru náttúrulega ótrúlegir, – ég hef sjaldan heyrt annan eins píanóleik.“

Minnum á Innanlandsráðstefnu

Minnum á EPTA Innanlandsráðstefnuna sunnudaginn 14. janúar í Bergi tónleika- og fyrirlestrarsal Tónlistarskóla Reykjanesbæjar frá kl. 10:00-19:00. Fjölbreytt erindi innlendra og erlendra gestafyrirlesara: Professor Julia Mustonen-Dahlkvist frá University of Karlstad, Sunna Gunnlaugsdóttir, Björg Brjánsdóttir, Kári Árnason, Bjargey Þrúður Ingólfsdóttir og einstakur listviðburður kl. 17:30 – einleikstónleikar hins margverðlaunaða unga píanóleikara frá Hong Kong – Aristo Sham. Skráningar hafa gengið mjög vel og stefnir allt í frábæra og fræðandi ráðstefnu að hætti Íslandsdeildar EPTA.

Hægt verður að kaupa dagspassa samdægurs á ráðstefnuna og einnig verður hægt að kaupa miða á tónleika Aristo Sham eingöngu sem hefjast kl. 17:30. Verð dagspassa: kr. 15.000 / 8000 fyrir námsmenn (innifalin létt hádegis-og síðdegishressing); verð tónleikamiða: kr. 2500 / 1500 fyrir námsmenn, aldraða og öryrkja.
Minnum á að hægt er að sækja um styrk fyrir ráðstefnugjaldi í endurmenntunarsjóði stéttarfélaga.