Saga félagsins

Íslandsdeild EPTA 

Evrópusamband píanókennara var stofnað í Bretlandi árið 1978.  Ísland var fyrsta landið til að ganga í sambandið, þann 19. febrúar 1979. Halldór Haraldsson píanókennari og píanóleikari átti frumkvæði að stofnun Íslandsdeildar félagsins og var einnig fyrsti formaður EPTA á Íslandi. Hann frétti af nýstofnuðum samtökunum og hafði samband við Carolu Grindea í gegnum fyrrum nemanda sinn, hana Ingu Ástu Hafstein. Í dag eru félagar Íslandsdeildar EPTA 125 talsins og fer ört fjölgandi.

EPTA stuðlar að fræðslu píanókennara með námskeiðum, ráðstefnum og útgáfu á fræðsluritinu, EPTA Journal. Íslandsdeild EPTA gefur reglulega út fréttabréf um það helsta sem er á döfinni bæði heima og erlendis í píanóheiminum. Félagið hefur staðið fyrir fjölbreyttum píanónámskeiðum, hvort heldur fyrir kennara eða nemendur. Einnig heldur félagið árlegar innanlandsráðstefnur fyrir félagsmenn.

EPTA keppnin er meðal þekktustu tónlistarkeppna á Íslandi í flutningi klassískrar tónlistar.  Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari vann fyrstu keppni EPTA árið 2000 en hún hefur síðan verið haldin á þriggja ára fresti. Keppnin er íslenskum píanónemendum hvatning og ögrandi tækifæri til að reyna sig við krefjandi kringumstæður. Keppni EPTA hefur veitt píanónemendum á Íslandi ómetanlega reynslu og hefur bæði beint og óbeint opnað dyr að þátttöku þeirra í keppnum erlendis.
Dómnefnd keppninnar samanstendur af fimm píanóleikurum og hefur yfirdómari keppninnar ávallt verið þekktur erlendur píanóleikari. Þar á meðal má nefna Prof. Malcolm Troup, Prof. Peter Toperczer, Prof. Diane Andersen og Nelita True.

Margir meðlimir Íslandsdeildar EPTA hafa sótt ráðstefnur í Bretlandi og árlegar alþjóðlegar ráðstefnur EPTA þar sem þeir kynna íslenska píanótónlist, kynna nýtt kennsluefni eða halda tónleika. Þessar ráðstefnur eru frábær vettvangur fyrir félaga EPTA til að byggja upp sambönd við píanókennara frá öðrum evrópulöndum og margir góðir erlendir kennarar hafa komið til Íslands og haldið masterklassa í kjölfarið. Þar á meðal hefur stofnandi EPTA, Carola Grindea, heimsótt Ísland tvisvar.

Í september árið 2016 var alþjóðleg ráðstefna EPTA haldin í fyrsta sinn á Íslandi og var það Íslandsdeild EPTA sem stóð fyrir ráðstefnunni.

Stjórn EPTA á Íslandi skipa Ólöf Jónsdóttir, formaður; Brynja Steinþóra Gísladóttir, gjaldkeri og Einar Bjartur Egilsson, ritari. Stjórnin vinnur öll sín störf í sjálfboðavinnu.