Lög

 

1. gr.

Nafn og heimili

Félagið heitir EPTA á Íslandi. Félagið á aðild að Evrópusambandi píanókennara (EPTA – European Piano Teachers’ Association). Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

 

2. gr.

Tilgangur

Tilgangur félagsins er:

a) Að efla píanókennslu.

b) Að stuðla að samheldni og samvinnu píanóleikara og píanókennara innan lands sem utan.

c) Að beita sér fyrir og skipuleggja fundi, námskeið og ráðstefnur þar sem kennarar og píanóleikarar geta borið saman hugmyndir sínar og viðhorf til píanókennslu.

d) Að efna til og skipuleggja píanókeppnir fyrir píanónemendur.

e) Að koma á framfæri sjónarmiðum píanókennara um píanónám og píanókennslu.

 

3. gr.

Félagsmenn

Píanókennarar, píanóleikarar, píanónemendur og allir þeir sem áhuga hafa á píanóleik og píanókennslu eiga rétt til aðildar að félaginu.

 

4. gr.

Félagsgjöld og tekjur félagsins

Félagsgjöldum er ætlað að standa straum af kostnaði við starfsemi félagsins. Þau skulu ákveðin árlega á aðalfundi. Gjalddagi árgjalds er 1. febrúar ár hvert. Aðrar tekjur félagsins eru styrkir, vaxtatekjur svo og aðrar tekjur sem kunna að verða af rekstri.

 

5. gr.

Félagsfundir

Félagsfundur fer með æðsta vald félagsins. Rétt til setu á félagsfundi, kjörgengi til stjórnar og atkvæðisrétt hafa þeir félagsmenn sem eru skuldlausir við félagið. Félagsfundur skal haldinn samkvæmt ákvörðun félagsstjórnar eða að kröfu tíunda hluta félagsmanna.

Félagsmaður getur veitt öðrum félagsmanni umboð til að fara með atkvæðisrétt sinn. Umboð skal vera skriflegt og dagsett. Hver félagsmaður getur eingöngu farið með umboð eins félagsmanns.

Félagsfundur kýs fundarstjóra og fundarritara, sem skráir fundargerð.

Hver félagsmaður á rétt á að fá ákveðið mál tekið til meðferðar á félagsfundi ef hann gerir skriflega kröfu um það til félagsstjórnar a.m.k. fjórum dögum fyrir boðaðan félagsfund.

Meiri hluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála á félagsfundum, nema annað sé ákveðið í lögum þessum.

 

Aðalfundur skal haldinn árlega fyrir lok apríl ár hvert. Á dagskrá aðalfundar skal m.a. vera:

a) Skýrsla stjórnar

b) Skýrslur nefnda

c) Reikningar félagsins

d) Kosning formanns, stjórnarmanna og varamanna þeirra.

e) Kosning tveggja skoðunarmanna

f) Ákvörðun félagsgjalda

g) Önnur mál

 

Kosning stjórnarmanna og skoðunarmanna skal vera skrifleg.

 

6. gr.

Fundarboð og dagskrá

Stjórn félagsins skal með minnst sjö daga fyrirvara boða til félagsfundar með auglýsingu sem birt er á heimasíðu félagsins og send með tölvupósti til félagsmanna eða á annan tryggilegan hátt. Dagskrá skal liggja fyrir eigi síðar en þremur dögum fyrir félagsfund.

 

7. gr.

Stjórn

Stjórn félagsins skal skipuð þremur mönnum úr röðum félagsmanna, formanni og tveimur meðstjórnendum. Formaður og meðstjórnendur skulu kosnir á aðalfundi til eins árs í senn en að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum og velur gjaldkera og ritara.

Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda með skemmst þriggja daga fyrirvara. Stjórnarfundi skal boða með tölvupósti eða öðrum sannanlegum hætti þar sem greint er frá helstu dagskrárliðum. Fundargögn skulu send út með fundarboði ef þess er nokkur kostur. Fund skal halda komi um það ósk frá stjórnarmanni. Geti stjórnarmaður ekki sótt fund ber honum að tilkynna forföll til þess sem boðar fundinn. Skal þá varamaður boðaður. Ef stjórnarmaður forfallast til lengri tíma s.s. vegna veikinda og fjarveru skal varamaður taka sæti hans á meðan forföllin vara.

Stjórn er ákvörðunarbær þegar meiri hluti stjórnar sækir fund. Ákvörðun má þó ekki taka nema allir stjórnarmenn eða varamenn þeirra hafi átt þess kost að fjalla um málið sé þess kostur. Einfaldur meiri hluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði formanns úrslitum.

Stjórn er heimilt að halda stjórnarfundi með aðstoð rafrænna miðla, s.s. með tölvupósti og fjarfundabúnaði, að svo miklu leyti sem það samræmist framkvæmd verkefna félagsstjórnar. Þó getur stjórnarmaður krafist þess að stjórnarfundur verði haldinn með hefðbundnum hætti.

Stjórn félagsins tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Stjórn félagsins þiggur ekki laun fyrir stjórnarsetu.

Stjórn félagsins skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og annars stjórnarmanns nægileg til þess.

Stjórnarmanni er óheimilt að taka þátt í meðferð máls eða ákvörðun um málefni sem varðar hann eða þriðja mann hafi hann verulegra hagsmuna að gæta sem kunna að fara í bága við hagsmuni félagsins. Skylt er stjórnarmanni að upplýsa um slíkt tilvik.

Ákvarðanir stjórnar skulu færðar í fundargerð sem staðfestar skulu af stjórn. Stjórnarmaður á rétt á að fá bókaðar athugasemdir og sérálit. Víki stjórnarmaður af fundi vegna vanhæfis skal það sérstaklega bókað í fundargerð

 

8. gr.

Nefndir

Stjórn er heimilt að skipa nefndir til að vinna að undirbúningi og framkvæmd tiltekinna verkefna.

Við skipan nefnda ber að tryggja faglega þekkingu nefndarmanna og hlutleysi í samræmi við verkefni nefnda.

Nefndarmanni er óheimilt að taka þátt í meðferð máls eða ákvörðun um málefni hafi hann verulegra hagsmuna að gæta. Skylt er nefndarmanni að upplýsa um slíkt tilvik. Víki nefndarmaður af fundi vegna vanhæfis skal það sérstaklega bókað í fundargerð

Stjórn ákveður þóknun fyrir störf dómara í píanókeppnum ásamt farareyri og gistingu.

 

9. gr.

Reikningar félagsins og reikningsár

Reikningsár félagsins er frá 1. maí til 30. apríl. Reikningar skulu áritaðir af skoðunarmönnum félagsins.

 

10. gr.

Breytingar á lögum félagsins og félagsslit

Tillaga um breytingar á lögum þessum skal tekin til meðferðar á félagsfundi og skal efni hennar lýst í dagskrá.

Samþykki 2/3 fundarmanna á félagsfundi þarf til að breyta lögum félagsins.

Tillaga um slit félagsins skal sæta sömu meðferð og tillaga um breytingar á samþykktum. Á þeim fundi skal þá jafnframt tekin ákvörðun um hvernig farið skuli með eignir félagsins.

Lög þessi taka þegar gildi.

 

Samþykkt á aðalfundi 30. apríl 2019.