Bjargey Þrúður Ingólfsdóttir er píanókennari við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar þar sem hún er einnig deildarstjóri hljómborðsdeildar.
Bjargey lauk píanókennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem aðalkennari hennar var Margrét Eiríksdóttir. Í framhaldinu stundaði hún einkanám í rúm þrjú ár hjá Árna Kristjánssyni og að lokum tvö ár hjá Kauko Kuosma píanóleikara og tónskáldi við Síbelíusar-akademíuna í Helsinki. Þjálfun og kennsluréttindi í Feldenkrais aðferðinni hefur dýpkað skilning hennar á hreyfingum og námi en einnig var Bjargey ein af stofnendum Íslenska Dansflokksins sem er meginástæða áhugans á tengslum ólíkra listgreina og mögulegrar yfirfærslu milli þeirra.
Í fyrirlestrinum „Við upphafið“ – spuni með byrjendum, er fjallað um hvernig laða má fram flæði hljóða og tóna í litlum hópum ungra byrjenda á píanó, þar sem píanóið getur jafnt verið stór eða lítill hluti af heild en einnig í einleikshlutverki. Hvernig hugur og skynjun – sem er meginviðfangsefni kennarans við upphaf spuna hjá ungum byrjanda – nýtur, auk möguleika píanósins, áhrifa hljóðheims slaghljóðfæra, myndlistar og texta.
Heimsóknir í tónlistarháskóla í Vín, Bologna, Berlín og Árósum, auk námskeiða í námsleyfi veturinn 2008 – 2009, með það að markmiði að leita að efni í spunakennslu fyrir unga byrjendur á píanó var undirbúningur undir þróunarverkefni sem lýst er í fyrirlestrinum.