EPTA stóð fyrir ýmsum viðburðum í tilefni 40 ára afmælis félagsins þann 19. febrúar 2019.
Afmælishátíð var haldin 19. febrúar í Hannesarholti og mættu þangað gamlir félagar sem og nýir. Ungi píanistinn Kári Egilsson kom og lék á flygilinn með glæsibrag m.a. frumsamið efni, en Kári hlaut í lok árs 2018 hvatningarverðlaun ASCAP, sem eru samtök tónskálda í Bandaríkjunum. Verðlaunin hlaut Kári fyrir framlag sitt sem upprennandi tónskáld og lagahöfundur.
Stjórn EPTA ákvað í tilefni afmælisársins að veita heiðursviðurkenningu í fyrsta sinn. Þrír félagar sem allir hafa gegnt mikilvægu hlutverki í starfi og uppbyggingu félagsins voru sæmdir heiðursviðurkenningunum. Það voru þau Arndís Steingrímsdóttir, Inga Ásta Hafstein og Halldór Haraldsson. Halldór gat ekki verið viðstaddur á afmælisdegi EPTA en fékk heiðursviðurkenninguna afhenta af stjórn félagsins á góðri kvöldstund stuttu síðar.
Píanódagur EPTA var haldinn 25. maí í sal Tónlistarskóla Garðabæjar í Kirkjulundi. Þar léku nokkrir lengra komnir nemendur úr Listaháskólanum áhugaverða efnisskrá. Þeim var svo boðið að taka þátt í masterklassa Jeremy Denk um haustið.
Næsti viðburður á afmælisárinu voru svo tónleikar bandaríska píanóleikarans Jeremy Denk. Þeir voru haldnir sunnudaginn 29. september í Norðurljósasal Hörpu og lék Denk þar af mikilli snilli og listrænu innsæi. Daginn eftir tónleikana leiddi hann síðan masterklassa í sal Tónlistarskóla Garðabæjar í Kirkjulundi. Þar léku nemendur úr Listaháskólanum fjölbreytt verk tónbókmenntanna og fengu góða tilsögn og hugmyndir frá Denk varðandi tækni og túlkun verkanna.
Halldór Haraldsson heiðursfélagi EPTA ásamt Ólöfu Jónsdóttur formanni EPTA Kári Egilsson spilaði á afmælinu 19. febrúar 2019 Ólöf kynnir heiðursfélaga á afmælinu 19. febrúar 2019 Afmælið 19. febrúar 2019 Jeremy Denk eftir tónleikana í Hörpu ásamt stjórn EPTA, frá vinstri Brynja, Einar, Ólöf og Gerður.