Næsta innanlandsráðstefnan verður haldin sunnudaginn 14. janúar 2018 í Bergi tónleika- og fyrirlestrarsal Tónlistarskóla Reykjanesbæjar frá kl. 10:00-19:00. Tónlistarskólinn hefur boðið okkur velkomin að nýta hina frábæru aðstöðu sem þar er til staðar og hlökkum við til að halda næstu innanlandsráðstefnuna utan höfuðborgarsvæðisins, síðast þegar EPTA félagar lögðu land undir fót var ekkert smávegis fjör og vonumst við til að sem flestir sjái sér fært að mæta.
Til þess að EPTA félagar geti gert sér glaða helgi í tengslum við innanlandsráðstefnuna höfum við fengið tilboð í gistingu á Hótel Berg (kr. 12.000 fyrir tveggja manna herbergi m. morgunverði) og hátíðarkvöldverð á Kaffi Duus (kr. 5400 3. rétta matseðill) laugardaginn 13.1. fyrir félagsmenn. ATH. félagsmenn bóka sjálfir gistingu með því að senda á berg@hotelberg.is v. innanlandsráðstefnu EPTA. Til að taka þátt í hátíðarkvöldverði á Kaffi Duus þarf að senda staðfestingu á epta@epta.is
Laugardaginn 13.1. er hægt að nýta til afslöppunar enda margt hægt að gera og sjá á svæðinu, Bláa lónið og ýmis menningarstarfsemi og söfn
Lokaskráningarfrestur á innanlandsráðstefnuna er til 22. des. nk. Skráningargjald á ráðstefnuna er kr. 12.500 fyrir EPTA félaga og kr. 15.000 fyrir aðra, sem innifelur léttan hádegisverð, kaffi og síðdegishressingu og greiðist við skráningu fyrir 15. des. nk. Vinsamlegast greiðið inn á reikning EPTA 0515-26-13773 kt. 690586-2239 og sendið skýringu á epta@epta.is Minnum á að hægt er að sækja um styrk fyrir ráðstefnugjaldi í endurmenntunarsjóði stéttarfélaga.
Dagskrá innanlandsráðstefnunnar verður fjölbreytt og metnaðarfull að vanda, innlendir og erlendir gestafyrirlesarar miðla af reynslu sinni og þekkingu. Þar má nefna Björgu Brjánsdóttur, flautuleikara og Timanikennara sem kynnir Timaniaðferðina um góða líkamsbeitingu við hljóðfæraleik, Bjargeyju Þrúði Ingólfsdóttur, deildarstjóra hljómborðsdeildar í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem fjalla mun um spunakennslu píanónema, Kára Árnason, sjúkraþjálfara hjá Gáska og Landspítalanum- Háskólasjúkrahúsi sem fjalla mun um áhrif hljóðfæraleiks á stoðkerfið og Sunnu Gunnlaugsdóttur, jazzpíanóleikara og kennara við MÍT sem fjalla mun um kennslu í ritmísku píanónámi.
Upptaktur að VII. píanókeppni EPTA sem fram fer 23.-24. nóv. 2018 verður gestafyrirlestur prófessor Juliu Mustonen-Dahlkvist á innanlandsráðstefnunni en hún er deildarstjóri píanódeildar Ingesund College of Music við háskólann í Karlstad. Prófessor Mustonen-Dahlkvist er eftirsóttur píanóleikari, verðlaunahafi, dómari, gestafyrirlesari og kennari víða um heim auk þess að gegna stöðu listræns stjórnanda Nordic Piano Competition í Svíþjóð. Hún mun alla um eitt af sérsviðum sínum, undirbúning nemenda fyrir keppnir og sitja fyrir svörum ráðstefnugesta en nemendur hennar hafa unnið til verðlauna víða um heim. Ráðstefnunni lýkur með spennandi tónleikum nemanda Mustonen-Dahlkvist og rísandi stjörnu í píanóheiminum, Aristo Sham sem hlotið hefur fjölmörg verðlaun í alþjóðlegum keppnum á ferli sínum. Hann kemur til okkar beint frá tónleikahaldi í Bandaríkjunum á ferð sinni yfir hafið og verða tónleikar hans án efa hápunktur ráðstefnunnar. Á efnisskránni verða verk eftir Scarlatti, Scriabin, Liszt, Brahms og Barber.
Dagskrá ráðstefnunar má nálgast hér: Dagskrá Innanlandsráðstefnu Íslandsdeildar EPTA 14.janúar 2018