Listasafn Sigurjóns
þriðjudagskvöld 8. ágúst 2017 kl. 20:30
Miðasala við innganginn
Aðgangseyrir kr. 2500
Tekið er við greiðslukortum
Heimsókn frá Ítalíu
Á þessum næstsíðustu tónleikum sumarsins í LSÓ
verður Bösendorfer flygill safnsins í aðalhlutverki. Þá
leika ítölsku píanóleikararnir Marco Scolastra og
Sebastiano Brusco fjórhent á flygilinn:
Deux Marches caractéristiques eftir Franz Schubert,
Ungarische Tänze_eftir Johannes Brahms,
Hugleiðingar eftir Giuseppe Martucci
um „Un ballo in maschera“ eftir Verdi,
Blaðsíður úr stríðinu eftir Alfredo Casella
Ítalska kaprísu, ópus 45 eftir Pjotr Tjaikovski.
Marco og Sebastiano eru báðir afar virtir og eftirsóttir
píanóleikarar í heimalandi sínu og hafa unnið til
þekktra verðlauna og viðurkenninga á alþjóðlegum
vettvangi. Er það því mikill fengur að fá að heyra leik
þeirra hér á landi.
Marco Scolastra píanóleikari fæddist í Foligno á Ítalíu. Hann nam við
Tónlistarháskólann F. Morlacchi í Perugia undir
handleiðslu Franco Fabiani og útskrifaðist þaðan með
hæstu einkunn. Hann stundaði síðan nám hjá Aldo Ciccolini
og Ennio Pastorino og sótti tíma hjá Lya De Barberiis, Paul
Badura-Skoda, Dario De Rosa. Einnig nam hann hjá Joaquín
Achúcarro og Katia Labèque við akademíuna í Chigiana.
Hann hefur leikið einleik með kammersveitum og
sinfóníuhljómsveitum víða um Ítalíu og öllum helstu
borgum Evrópu, í Japan, Mexíkó og Bandaríkjunum. Af
tónleikastöðum má nefna Teatro La Fenice, Tjaikovskí
tónlistarháskólann í Moskvu, Tonhalle og
Útvarpshúsið í Zürich, Konserthúsið í Bern og Chopin
stofnunina í Varsjá.
Marco Scolastra hefur leikið með þekktum stjórnendum svo
sem Romano Gandolfi, Howard Griffiths, Richard Hickox, Claudio Scimone
og Lior Shambadal. Hann hefur komið fram í útvarpi og
sjónvarpi víða um Evrópu og hefur hljóðritað
geisladiska fyrir Phoenix Classics, Stradivarius og Rai
International.
Ítalski píanóleikarinn, Sebastiano Brusco stundaði píanónám hjá
Valentino Di Bella við Tónlistarháskólann F. Morlacchi
í Perugia og síðar í Accademia Musicale Umbra Endas hjá Ennio
Pastorino og Aldo Ciccolini. Báðum þessum skólum lauk hann
með besta vitnisburði. Einnig hefur hann sótt tíma til
píanóleikara eins og Joaquín Achúcarro og Katia Labèque.
Hann hefur komið fram í helstu borgum Evrópu og víða í
Bandaríkjunum. Hann hefur starfað með þekktum
hljóðfæraleikurum á borð við Vadim Brodsky
fiðluleikara, leikið með hljómsveitum og
kammersveitum eins og Bernini kvartettinum, I Solisti
Veneti í Feneyjum og Sinfóníuhljómsveitinni í Mílanó,
með stjórnendum eins og Riccardo Chailly, Romano Gandolfi og
Claudio Scimone. Hann leikur einkum 20. aldar tónlist og
hefur frumflutt verk eftir tónskáldin Tosatti, M. Gould,
Milhaud, Boriolo, Taglietti og fleiri.
Sebastiano hefur hlotið fjöldamörg verðlaun fyrir
tónlistarflutning heima á Ítalíu og í alþjóðlegum
tónlistarkeppnum, meðal annars Carlo Soliva verðlaunin
árið 1998.
Sebastiano Brusco og Marco Scolastra hafa leikið reglulega
saman sem píanódúó frá árinu 1993 og hafa komið víða
fram og gefið út geisladiskinn Colours and Virtuosity of
the 20th Century in Italy sem Phoenix Classics gaf út.